Á tólf mánuðum hafa 330.000 viðskiptavinir stofnað reikning í innlánabanka Kaupþings á netinu - Kaupthing Edge - og lagt inn um 810 milljarða króna – eða sem nemur 5,2 milljörðum evra. Á þriðja ársfjórðungi 2008 lögðu viðskiptavinir inn um 340 milljarða króna eða 2,2 milljarða evra samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Síðustu sex mánuði hefur meðal innflæði á mánuði numið rúmum 100 milljörðum króna, jafnvirði um 700 milljóna evra. Þetta innflæði er mun hærra en afborganir langtímalána bankans segja upplýsingar sem fengust frá bankanum.

September var met mánuður hjá Kaupthing Edge í fjölda nýrra umsókna sem kemur væntanlega mörgum á óvart í ljósi þess að fjölmiðlaumfjöllun um Kaupþing, Ísland og banka almennt var mjög neikvæð í alþjóðlegum fjölmiðlum á sama tíma. Velgengni Kaupthing Edge hefur tryggt Kaupþingi sterka lausafjárstöðu.

Kaupthing Edge - hefur nú verið settur upp á ellefu mörkuðum á síðustu tólf mánuðum. Kaupthing Edge er fyrsta alþjóðlega vara Kaupþings sem er markaðssett í allri samstæðunni. Kaupþing stefnir á að opna Kaupthing Edge í fleiri löndum Evrópu á þessu ári og því næsta.

Samkvæmt upplýsingum frá bankanum þá hafa innlán í Kaupthing Edge reynst mjög fastheldin og sést það best á því að þessi innlán hafa verið byggð upp að mestu á árinu 2008, þegar umfjöllun um Ísland og íslensku bankana hefur verið að mestu neikvæð.