Á fyrri helmingi ársins 2017 voru fluttar út vörur fyrir 244,4 milljarða króna en inn fyrir 325,5 milljarða króna. Halli var því á vöruviðskiptum við útlönd nam 81,1 milljarði króna. Á sama tíma árið áður voru vöruviðskipti óhagstæð um 64,2 milljarða króna á gengi hvors árs. Vöruviðskiptajöfnuðurinn var því 16,9 milljörðum króna lakari en sama tíma árið áður. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.

Í júní voru fluttar út vörur fyrir 45,2 milljarða króna og inn fyrir 59,2 milljarða króna. Vöruviðskiptin í júní voru óhagstæð um 14,7 milljarða króna reiknað á gengi hvors árs.

Verðmæti vöruútflutnings 11,1% lægra

Á fyrri helmingi ársins 2017 var verðmæti vöruútflutnings 30,5 milljörðum króna lægra, eða 11,1%, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 55,2% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,1% lægra en á sama tíma árið áður. Útflutningur á lyfjum og lækningatækjum dróst saman en útflutningur á áli jókst. Sjávarafurðir voru 38,0% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 21,9% lægra en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur var í útflutningi á ferskum fiski og frystum flökum.

Á fyrri helmingi ársins 2017 var verðmæti vöruinnflutnings 13,6 milljörðum króna lægra, eða 4%, á gengi hvors árs, en á sama tímabili árið áður. Aðallega dróst innflutningur á flugvélum og neysluvörum saman en á móti jókst innflutningur á skipum, eldsneyti, fólksbílum og hrá- og rekstrarvörum.