Meirihluti þjóðarinnar eða 81,3% landsmanna er fylgjandi því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni, samkvæmt niðurstöðum MMR fyrir Hjartað í Vatnsmýrinni .

Fram kemur í könnun MMR að stuðningur við það að flugvöllurinn verði á sínum tað mælist mikill á öllum svæðum landsins. Hann er þó meiri utan Reykjavíkur en þar er 71,8% stuðningur við að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Til samanburðar vilja 90,2% íbúa á landsbyggðinni að flugvöllurinn verði þar áfram.

Í tilkynningu frá Hjartanu í Vatnsmýrinni segir að leitun sé að jafn miklum stuðningi við tiltekið málefni á landsvísu.

Könnunin fór fram dagana 9. til 11. september 2013. Alls voru þátttakendur 942 og af þeim tóku 89,1% aðspurðra afstöðu. Spurt var: "Vilt þú að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík?". Meðfylgjandi eru niðurstöðurnar.