Rekstrartekjur steypustöðvarinnar BM Vallár námu rétt tæpum 6 milljörðum í fyrra, sem er fimmtungsaukning milli ára. Rekstrargjöld námu rúmum 4,7 milljörðum og jukust um 17%. Hagnaður nam 818 milljónum og jókst um 57%.

Heildareignir félagsins námu tæpum 2,9 milljörðum og jukust um 8% milli ára, og eigið fé nam 2 milljörðum og jókst um 56%. Eiginfjárhlutfall var 69%, samanborið við 48% árið áður.

Ársverk voru 119 í fyrra, en 101 árið áður, og greidd laun voru milljarður, en rúmar 800 milljónir árið áður. Meðallaun voru því 700 þúsund krónur á mánuði, og hækkuðu um 5% milli ára.

Á árinu 2017 voru greiddar 100 milljónir í arð, en 20 milljónir árið áður. Stjórn félagsins hyggst leggja til við aðalfund að greiddur verði arður á yfirstandandi ári.