Hagvöxtur Þýskalands mældist 8,2% á þriðja ársfjórðungi, og hefur ekki verið meiri frá því ársfjórðungslegar mælingar hófust árið 1970.

Búist hafði verið við miklum vexti í kjölfar fordæmalauss 10% samdráttar á öðrum fjórðungi vegna heimsfaraldursins, en könnun Reuters meðal hagfræðinga skilaði spá upp á 7,3% vöxt. Greinandi í frétt Reuters líkir þróuninni við bolta í vatni. „Því dýpra sem þú ýtir honum, því hærra skýst hann uppúr aftur þegar þú sleppir.“

Einkaneysla og útflutningur drógu vagninn, meðal annars þökk sé óvenju mikilli eftirspurn eftir þýskum vörum frá Kína. Yfirvöld hafa ráðist í umfangsmiklar björgunaraðgerðir, meðal annars að greiða fyrirtækjum allt að 75% af tekjum þeirra í nóvembermánuði í fyrra.

Seinni bylgja faraldursins, sem nú ríður yfir fjórða stærsta hagkerfi heimsins, mun setja mark sitt á síðasta fjórðung ársins, og hefur aukið óvissu um horfur til muna og torveldað hagvaxtarspár. Yfirvöld spá nú 5,5% samdrætti á árinu, sem er bjartsýnna en þau 5,8% sem spáð hafði verið áður.