Stjórnunarkostnaður og skrifstofuhald 74 sveitarfélaga landsins nam 8,2 milljörðum króna samkvæmt nýjustu ársreikningum þeirra. Hjá minni sveitarfélögum er kostnaðurinn nær allt að 40% af heildarútsvarstekjum.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, segist í samtali við Fréttablaðið í dag ekki leggja mat á það hvort stjórnunarkostnaður sveitarfélaga á Íslandi sé óeðlilega hár í samhengi við um 220 milljarða útsvarstekjur. Hann segir reynsluna sýna að sameining sveitarfélaga skili verulegum sparnaði í yfirstjórn þeirra. Sparnaðurinn sé nýttur til að jafna þjónustuna á milli byggðakjarna. Það skili ávinningi fyrir íbúa sveitarfélaganna.

Karl segir í samtali við blaðið litla hreyfingu vera í frekari sameiningu sveitarfélaga. Fyrir árið 2007 gengu menn myndarlega til verka og hafði sveitarfélögum þá fækkað úr 105 í 79 árin á undan. Þau eru í dag 74. Karl segir það skýra afstöðu Sambands sveitarfélaga að ákvörðun um sameiningu fari fram samkvæmt vilja íbúa.