*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Innlent 15. nóvember 2019 10:41

8,2 milljóna skattsekt vegna veðmála

Kópavogsbúi var á dögunum sektaður af yfirskattanefnd fyrir að hafa vantalið tekjur sem hann hafði af veðmálum.

Jóhann Óli Eiðsson
Veðmál í tengslum við íþróttaviðburði njóta talsverðra vinsælda.
Haraldur Guðjónsson

Kópavogsbúi var á dögunum sektaður af yfirskattanefnd (YSKN) fyrir að hafa sleppt því að telja fram tekjur sem hann hafði af veðmálum á erlendri veðmálasíðu. Samtals þarf maðurinn að greiða 8,2 milljónir í sekt.

Rannsókn málsins hófst í ágúst í fyrra og lauk henni í desember. Niðurstöður hennar voru að maðurinn hefði vantalið tekjur af veðmálum árin 2014-2016 og vanrækt að gera grein fyrir erlendum bankareikningum. Tekjur mannsins af veðmálunum námu 4,3 milljónum tekjuárið 2014, 7,4 milljónum tekjuárið 2015 og 1,7 milljónum tekjuárið 2016. Samtals rúmlega 13,4 milljónir króna. Með háttsemi sinni hefði hann komist hjá því að greiða um 4,6 milljónir í tekjuskatt og útsvar.

Meðal gagna málsins var yfirlit yfir erlendan bankareikning. Kannaðist maðurinn við að hafa verið með erlent greiðslukort á tímabilinu en gat ekki staðfest að yfirlitið sýndi neyslu hans. Á því mátti hins vegar sjá að hann hafði verið nýttur til að greiða reikninga í hans nafni, meðal annars vegna viðgerðar á bifreið og tryggingar hans. Aðspurður um hví hann hefði ekki gefið umræddar tekjur upp til skatts bar maðurinn því við að hann hefði talið að tekjurnar væru skattfrjálsar.

Að mati YSKN hafði maðurinn skilað efnislega röngu skattframtali og mátti rekja það til ásetnings eða stórkostlegs hirðuleysis. Lög um tekjuskatt kveða á um að sekt í tilfelli sem þessu skuli aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin að teknu tilliti álags á gjaldstofn.

Varð það niðurstaðan að maðurinn skyldi greiða 5,1 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs vegna þess hluta málsins er varðar tekjuskatt. Þá var honum gert að greiða 3,1 milljónir króna í sekt til bæjarsjóð Kópavogs vegna útsvarsins sem hann komst hjá því að greiða. Ekki kemur fram í úrskurði YSKN hvort endurálagningu opinberra gjalda hjá Ríkisskattstjóra er lokið.

Stikkorð: Skattar Veðmál