Þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðsins í Keflavík 23. apríl 2010 námu heildarútlán til starfsmanna 1.520 milljónum króna, þar af 1.000 milljónir í erlendri mynt. Höfðu 872,5 milljónir króna verið færðar niður vegna þessara lána. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall sparisjóðanna.

Tíu skuldugustu starfsmennirnir hjá sjóðnum skulduðu samtals tæplega 1,1 milljarð króna eða 72% af öllum lánum til starfsmanna. Í apríl 2010 höfðu 820 milljónir króna verið niðurfærðar vegna lána þessara tíu starfsmanna. Af þessum tíu voru sjö þeirra starfsmenn útibús Sparisjóðsins í Keflavík á Hvammstanga, þar sem áður var Sparisjóður Húnaþings og Stranda, og höfðu fengið lánað til kaupa á stofnfé við stofnfjáraukningar síðla árs 2007. Lánin höfðu verið veitt í erlendri mynt.