Coripharma Holding ehf., eignarhaldsfélag utan um íslenska lyfjafyrirtækið Coripharma, greiddi lyfjarisanum Teva Pharmaceutical 826 milljónir króna vegna kaupa Coripharma á Actavis ehf. í júní á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár en um er að ræða kaupverð að frádregnum arði. Afkoma Actavis ehf., nú Coripharma ehf., var neikvæð um 325 milljónir á síðasta ári og því nam bókfært verð hlutarins 501 milljón króna í bókum Coripharma Holdings.

Með kaupunum eignaðist Coripharma skrifstofuhúsnæði og verksmiðju Actavis í Hafnarfirði. Coripharma fékk í desember síðastliðnum framleiðsluleyfi fyrir lyfjaverksmiðju sína og samhliða hófst framleiðsla félagsins. Stærsti eigandi Coripharma Holding er framtakssjóðurinn TFII sem er í rekstri Íslenskra verðbréfa. 38,11% hlutur TFII var metinn á 361 milljón í ársreikningi sjóðsins fyrir síðasta ár sem samsvarar tæplega 950 milljóna króna heildarvirði.