Þau tíu samlags- og sameignarfélög landsins sem mest högnuðust á síðasta ári skiluðu samtals um 1,6 milljarða króna hagnaði og greiddu 2,1 milljarð í laun miðað við áætlun Viðskiptablaðsins. Alls greiddu 1.334 slík félög yfir milljón króna í tekjuskatt.

Blaðið tók saman upplýsingar um atvinnugrein og eignarhald ríflega 350 afkomuhæstu félaganna byggt á álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birti í síðustu viku vegna rekstrarársins 2021.

Samlags- og sameignarfélögin skila í flestum tilfellum ekki ársreikningi til ársreikningaskrár líkt og er raunin er til að mynda með hlutafélög. Því má líta á samantektina sem viðbót við bók Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, um afkomu stærstu fyrirtækja landsins sem dreift er með Viðskiptablaðinu í dag.

Samanlagður hagnaður þeirra nam ríflega 8,3 milljörðum króna og launagreiðslur tæpum 8,6 milljörðum. Meðalhagnaður nam rúmum 23 milljónum og meðallaunagreiðslur yfir 24 milljónum. Af félögunum 360 má áætla að Skatturinn hafi áætlað tekjur 37 félaga (en þau félög eru skáletruð í listunum hér á eftir).

Félögunum var skipt upp í 9 hópa og var læknastarfsemi langstærsti hópurinn eða 140 talsins. Þá voru 50 í þeim næststærsta, endurskoðun & ráðgjöf. Af hagnaðarmestu 50 félögunum voru 16 í hópnum læknar, 11 tannlæknar og 9 úr hópnum önnur starfsemi. Aðeins 14 þeirra tilheyrðu því hinum 6 flokkunum samanlagt.

Eins og við má búast var mestur hagnaður hjá læknahópnum eða tæpir 2,7 milljarðar. Lögmannsstofurnar högnuðust alls um 1,4 milljarða, þá högnuðust 40 félög tannlækna samanlagt um 1,2 milljarða.

Sé flokkunum raðað eftir meðalhagnaði eru þeir í miðjunni með 19,2 milljóna meðalhagnað. Lögmannsstofurnar greiddu langtum hæstu heildarlaunagreiðslurnar að meðaltali, ríflega 87 milljónir samanborið við aðeins 46 hjá Verktökum & iðnaðarmönnum í öðru sætinu.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um starfsmannafjölda félaganna þar sem ætla má að hjá lögmannstofunum starfi að meðaltali nokkru fleiri en í öðrum flokkum, sem myndi skýra hærra meðaltal heildarlaunagreiðslna.

Um samlags- og sameignarfélög gilda nokkuð sérstakar reglur. Félögin greiða 37,6% skatt af öllum tekjum að frádregnum kostnaði (tekjuskatturinn svokallaði leggst því í reynd á hagnað eins og hjá öðrum félögum) – nema arðgreiðslum sem bera 22% skatt líkt og fjármagnstekjur annarra – en á móti er enginn skattur lagður á greiðslur frá félögunum til eigenda sinna.

Ólíkt hlutafélögum ber að lágmarki einn félagsmaður samlagsfélaga og allir félagsmenn sameignarfélaga fulla og óskipta ábyrgð á skuldbindingum þess auk þess sem lágmarksfjöldi eigenda samlagsfélaga er tveir. Þar sem félögin fá engan persónuafslátt líkt og almennt launafólk er virkt skatthlutfall hærra framan af launastiganum, en þar sem samlags- og sameignarfélög hafa engin skattþrep og greiða því engan hátekjuskatt líkt og 46,25% efsta þrep launafólks, fer rekstur slíks félags að borga sig umfram bein laun þegar komið er yfir um það bil eina og hálfa milljón króna á mánuði.

Útreikningar blaðsins byggja á álögðum tekjuskatti og gera ráð fyrir flötu 37,6% skatthlutfalli og geta því gefið ranga mynd ef um frávik frá því er að ræða. Til viðbótar við lægra skatthlutfall af þegnum arðgreiðslum er félögunum líkt og öðrum heimilt að yfirfæra tap frá næstliðnum áratug og draga frá skattstofni. Þannig kann hagnaður að hafa verið hærri í fyrra en uppgefin tala, en hún endurspeglar þá í slíkum tilfellum meðalafkomu yfir lengra tímabil aftur í tímann en uppgjörsárið í fyrra.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði