Verðbólga í Tyrklandi mældist 83,45% í september, samanborið við 80,2% í ágúst, og hefur ekki verið meiri frá því í júlí 1998. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Óháðir sérfræðingar og stjórnarandstöðuflokkar í Tyrklandi segja hins vegar að verðbólgan sé enn hærri og saka tyrknesku hagstofuna um að hagræða gögnum. Vísitala neysluverðs í Istanbúl, stærstu borg Tyrklands, sýndi að verð hækkaði um 107% á milli ára í borginni.

Erdogan hafnar þeirri almennu hagfræðikenningu að hærri vextir dragi úr verðbólgu og hefur skipað seðlabankanum að halda vöxtum langt undir ársverðbólgu. Bankinn hefur lækkað vexti um eitt prósentustig tvo mánuði í röð, úr 14% í 12%.

Erdogan Tyrklandsforseti var tekinn tali hjá CNNTurk í síðustu viku þar sem hann kallaði eftir því að stýrivextir myndu lækka áfram og að þeir verði orðnir lægri en 10% fyrir árslok.

„Mín stærsta barátta er gegn vöxtum. Minn stærsti óvinur eru vextir. Við höfum núna lækkað vexti niður í 12%. En er það nóg? Nei það er ekki nóg. Vextirnir þurfa að lækka enn frekar,“ sagði Erdogan í viðtalinu.