Eftirlitsaðilar lokuðu í gær þremur bönkum í Bandaríkjunum og þar með hefur 84 bönkum verið lokað þar í landi það sem af er ári. Innstæðutryggingasjóður Bandaríkjanna, FDIC, tók yfir 26 banka í fyrra, samkvæmt upplýsingum á vef sjóðsins.

Innstæðutryggingasjóðurinn tryggir innstæður í 8.195 fjármálastofnunum. Vegna fjölda fallinna banka gengur nú á sjóðinn, sem hafði minnkað úr 13 milljörðum dala í lok fyrsta ársfjórðungs í 10,4 milljarða dala um mitt ár, að því er segir í frétt Bloomberg.

Sjóðurinn hefur lagt auknar álögur upp á 5,6 milljarða dala á banka til að eiga nóg fé til að mæta frekari áföllum. Stjórnarformaðurinn, Sheila Bair, segir að líklegt sé að álögurnar verði auknar frekar á þessu ári.

Á öðrum fjórðungi voru í Bandaríkjunum 416 bankar með samanlagðar eignir upp á 300 milljarða dala sem ekki uppfylltu viðmið FDIC um gæði eigna, lausafjárstöðu og hagnað. Þetta er lakasta niðurstaða frá því í júní 1994, að því er Bloomberg hefur eftir innstæðutryggingasjóðnum.