Hagnaður fasteigna- og rekstrarfélagsins Nýsis á síðasta ári nam 844 milljónum kr. Fastafjármunir nema í árslok 9.711 milljónum kr. og veltufjármunir 285 milljónum kr. Eignir eru samtals 9.996 milljónir kr. Skuldir og skuldbindingar samstæðunnar nema 7.704 milljónum kr. og eigið fé í árslok er 2.291 milljónir kr. að meðtaldri hlutdeild minnihluta. Velta samstæðunnar á árinu var 679 milljón kr.

Ársreikningur Nýsis hf er samstæðureikningur Nýsis hf og dótturfélaga. Í árslok eru dótturfélögin fimm talsins, Nýsir fasteignir hf, Salus ehf, Sjáland ehf, Faxafen ehf og Artes ehf. Dótturfélög Nýsis fasteigna eru níu, Grípir ehf, Iði ehf, Nýtak ehf, Engidalur ehf, Þekkur ehf, Hafnarslóð ehf, Stofn fjárfestingafélag ehf, Vorkvöld ehf og Borgarhöllin hf. Auk þess á Stofn fjárfestingafélag ehf tvö dótturfélög, Laugahús ehf og Laugakaffi ehf og Borgahöllin hf á eitt dótturfélag Egislhöllina ehf. Eru öll þessi félög innifalin í samstæðureikningum.

Í ársbyrjun 2004 tók Heilsumiðstöðin í Laugardal til starfa sem og Heilsugæslan í Salahverfi Í október s.l. keypti Nýsir hf allt hlutafé Borgarhallarinnar hf sem er eignar- og rekstraraðili íþróttamiðstöðvarinnar Egilshallar í Grafarvogi. Auk þessa var unnið að ýmsum ráðgjafar-verkefnum fyrir fyrirtæki og opinbera aðila, bæði hérlendis og erlendis.

Félagið hefur tekist á hendur aukin verkefni á sviði einkaframkvæmdar, fasteignastjórnunar og rekstrarverktöku. Gengið hefur verið frá samningum við Hafnafjarðarbæ um byggingu og rekstur íþróttahúss við Lækjarskóla og við Garðabæ um byggingu og rekstur leikskóla á Sjálandi, hvoru tveggja í einkaframkvæmd og verður íþróttahúsið tekið í notkun á árinu 2005, auk þess sem starfssemi leiksskólans mun hefjast á árinu. Gert er ráð fyrir örum vexti í starfsemi Menntaskólans Hraðbrautar, Heilsugæslunnar í Salahverfi og Heilsumiðstöðvarinnar í Laugardal. Auk þess eru ýmis áform um ný verkefni bæði innanland og erlendis. Áætluð velta Nýsis hf og dótturfélaga á árinu 2005 er rúmlega 1.400 milljónir kr.