Um 67% Íslendinga eiga eða hafa átt meðlimakort samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Það kemur ekki á óvart að hlutfallslega eru flestir korthafanna búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þannig eiga 68% Reykvíkinga kort og 75% íbúa nágrannasveitarfélaganna. Þar sem verslunin er í Garðabæ vekur hins vegar nokkra athygli að tæplega 58% landsbyggðarfólks á eða hefur átt meðlimakort í Costco .

Í könnuninni voru þeir sem svöruðu því játandi að eiga eða hafa átt meðlimakort spurðir að því hvort þeir hygðust endurnýja kortið. Þá voru þeir sem ekki eiga eða hafa átt kort spurðir hvort þeir ætluðu að fá sér kort á næstu sex mánuðum.

Þegar könnunin var gerð höfðu tæp 37% þegar endurnýjað kortið. Því til viðbótar sögðust um 48% ætla að endurnýja. Þetta þýðir að tæp 85% hafa endurnýjað kortið eða ætla að gera það. Ríflega 15% ætla sem sagt ekki að endurnýja kortið. Um 5% þeirra sem aldrei hafa átt kort ætla að fá sér meðlimakort á næstu sex mánuðum.

Ráðgjafafyrirtækið Zenter gaf árið 2016 út skýrslu um væntanleg áhrif Costco á íslenska markað. Í skýrslunni kom meðal annars fram að árleg endurnýjun á aðildarkortum Costco er að jafnaði 80-85%.  Könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið sýnir að hlutfallsleg endurnýjun meðlimakorta Costco á Íslandi er við efri mörk þess sem tíðkast hjá Costco í heiminum.

„Hærra en ég bjóst við"

Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, sem var einn höfunda skýrslunnar, segir nokkuð vel af sér vikið hjá Costco á Íslandi að fá 85% til að endurnýja kortin.

„Miðað við hversu margir Íslendingar er með kort og að teknu tilliti til þess æðis sem varð hér þegar verslunin opnaði, þá er þetta hlutfall aðeins hærra en ég bjóst við, "segir hann. „Það hefði ekki komið mér á óvart ef það hefðu verið aðeins meiri afföll."

Könnunin var gerð dagana 23. maí til 1. júní.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .