Þann 1. október 2011 voru 25.685 einstaklingar í alvarlegum vanskilum, samkvæmt upplýsingum frá CreditInfo. Er þar átt við vanskil sem varað hafa lengur en 90 daga og hafa oftar en ekki farið fyrir dóm. Af heildarfjölda einstaklinga í alvarlegum vanskilum eru 16,980 einstaklingar skráðir með árangurslaust fjárnám þar sem engar eignir eða ekki nægilegar eignir hafa fundist til að tryggja kröfur.

Af einstaklingum í þjóðskrá 18 ára og eldri eru 8,5% því í vanskilum. Mun fleiri karlar eru í vanskilum en konur, eða 16.950 á móti 8.735 konum. Flestir í vanskilum eru á aldririnum 30-49 ára.

Eftir landshlutum er hlutfall þeirra sem eru í alvarlegum vanskilum hæst á Reykjanesi, eða 15,8%. Hlutfallið er 9,4% á höfuðborgarsvæðinu.

„Árangurslausum fjárnámum fjölgaði verulega á fyrri hluta árs. Hjá sýslumannsembættum hafa mörg aðfararmál líklega verið sett í bið á meðan lánveitendur og lántakendur hafa athugað möguleika á greiðslusamkomulagi og uppgjöri. Einhver hluti þeirra mála hefur verið leystur með þeim hætti en jafnframt er ljóst að þessi möguleiki er ekki fyrir hendi í mörgum tilvikum og hefur þeim málum verið lokið með árangurslausu fjárnámi,“ segir í tilkynningu CreditInfo. Af 25.685 einstaklingum hafa 572 verið úrskurðaðir gjaldþrota.