Frá fyrstu úthlutun í kvótakerfinu árið 1984 til ársins 2008 hafa um 85% upphaflegra aflaheimilda færst yfir til annarra aðila fyrir framsal á markaði, að því er fram kemur í svari íslenska ríkisins til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna vegna þess álits nefndarinnar að ríkið hafi brotið á tveimur sjómönnum sem veiddu án kvóta.

Enn fremur hafi stjórnvöld fært umtalsverðar aflaheimildir til smábáta.

„Ljóst er að umbylting íslenska fiskiveiðistjórnarkerfisins nú kynni að hafa gríðarleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og að sumu leyti virðist vart vera hægt að vinda ofan af kerfinu, t.d. með innköllun kvótans til ríkisins, nema með því að ríkissjóður greiði öllum slíkum þolendum upptöku einhvers konar skaðabætur,” segir í svari íslenska ríkisins.

Ekki sé þó hægt að útiloka að íslenska ríkið gæti byggt aðgerðir sínar á þeirri grein laga um stjórn fiskveiða sem segir að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Hægt að innkalla veiðiheimildir í áföngum

Í svarinu kemur fram það mat að vafalaust sér hægt með lagabreytingu að breyta núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Því sé hins vegar ósvarað hvort það fengi staðist í ljósi stjórnarskrárverndar atvinnuréttinda og mannréttindasáttmála Evrópu að svipta þá sem fengið hafa úthlutað veiðiheimildum að öllu leyti heimildum sínum fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið og úthluta þeim til annarra. Verði að telja verulega vafasamt að slíkt yrði gert án þess að myndaðist bótaskylda.

„Á hinn bóginn væri að öllum líkindum heimilt að gera ýmsar breytingar á kerfinu, t.d. með því að innkalla úthlutaðar veiðiheimildir í áföngum á lengra tímabili og endurúthluta þeim gegn gjaldi, tímabundið eftir atvikum, þar sem allir ættu jafnan rétt til að bjóða í þær. Erfitt er hins vegar að leggja nákvæmt mat á það hve mikið magn megi taka og á hve löngum tíma. Grundvallarsjónarmið hlýtur að vera það að þeir, sem hafa fengið úthlutað veiðiheimildum í núverandi kerfi og öðlast hafa á þeim grundvelli atvinnuréttindi, fái sanngjarnan og hæfilegan frest til að laga rekstur sinn að breyttu laga- og rekstrarumhverfi,” segir í svarinu.