Umsvif í Byggingariðnaði hérlendis hafa sjaldan eða aldrei verið meiri en nú. Má reyndar vel merkja þetta í veltutölum Hagstofu Íslands úr byggingariðnaðinum undan farin ár.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar var veltan á síðasta ári rúmir 116,4 milljarðar króna fyrir utan virðisaukaskatt sem er ríflega 23 milljarða króna hækkun frá árinu 2003. Frá árinu 1998 hefur verið nær stöðug veltuaukning í byggingariðnaði hér á landi ef undan er skilið árið 2002 sem sýndi rúmlega 12 milljarða króna samdrátt.

Ef borin eru saman árin 1998 og 2004 er veltuaukningin á milli þessara ára tæp 85%. Þannig var veltan 1998 rúmir 63 milljarðar króna fyrir utan virðisaukaskatt, rúmir 68 milljarðar 1999, tæpir 78 milljarðar árið 2000 og rúmir 86 milljarðar króna árið 2001. Á árinu 2002 gætti greinilega samdráttareinkenna sem nam rúmum 12 milljörðum króna og var veltan það ár "einungis" rúmir 74 milljarðar króna. Kemur það heim og saman við erfiðleika fjölmargra fyrirtækja á þeim tíma.

Greinin fór síðan verulega að rétta aftur úr kútnum á árinu 2003 þegar veltan komst í tæpa 93 milljarða króna. Hagur greinarinnar hélt áfram að vænkast á árinu 2004 og greinilegt er af samtölum við forsvarsmenn iðnfyrirtækja að innspýting bankanna og hækkun lána til húsbygginga og húsnæðiskaupa eftir mitt síðasta ár hefur haft mikið að segja. Komst veltan þannig í rúmlega 116 milljarða króna á síðasta ári. Áhrifa aukinna lána gætir enn og virðist ekkert lát ætla að verða á því næstu mánuðina ef marka má verkefnastöðu byggingafyrirtækjanna.