Hagnaður matvælafyrirtækisins Síld og fiskur nam 85 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 2 milljónir króna milli ára. Tekjur félagsins námu 2.645 milljónum króna og jukust um 23 milljónir milli ára. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 144 milljónum króna og jókst um 3 milljónir milli ára. Þá nam rekstarhagnaður 99 milljónum króna og dróst saman um 2 milljónir frá fyrra ári.

Eignir félagsins námu 949 milljónum króna í árslok á meðan skuldir námu 352 milljónum en félagið er þó ekki með neinar langtíma vaxtaberandi skuldir í bókum sínum. Eigið fé var 596 milljónir um síðustu áramót og eiginfjárhlutfall var 63%. Félagið er að fullu í eigu 14. júní ehf. en það félag er í eigu Langasjós ehf. sem er í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýar Eddu, Halldór Páls og Gunnar Þórs Gíslabarna en Gunnar er framkvæmdastjóri Síld og fisks.