Á dögunum lauk skiptum á þrotabúi IceProperties ehf. án þess að nokkuð fengist upp í lýstar kröfur, sem námu alls tæplega 8,6 milljörðum króna. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í upphafi ársins 2011 og tóku skiptin því tæplega níu ár. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu.

IceProperties var dótturfélag IceCapital, sem áður hét Sund. Viðskiptablaðið sagði frá því árið 2011 að IceProperties hafi fengið 7,8 milljarða króna lán hjá Glitni árið 2008 til kaupa á hlutabréfum bankans. Í fréttinni kemur sömuleiðis fram að ekki hafi verið greitt af umræddu lánum á árunum 2010 og 2011.

Þá segir jafnframt í fréttinni að eigendur Sunds/IceCapital hafi neitað að lýsa félagið gjaldþrota þrátt fyrir að eigið fé þess hafi verið neikvætt um tæpa 25 milljarða króna samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hafi hins vegar komið fram að skuldir félagsins væru um 64 milljarðar króna. Stjórn Sunds/IceCapital sagði ástæðu þess að félagið hafi ekki verið lýst gjaldþrota vera þá að stjórnin hafi ekki gengið endanlega úr skugga um raunverulega eigna- og skuldastöðu félagsins.