Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að taka tilboði fjármálafyrirtækisins Landsbréfa í svonefnt Magma-skuldabréf sem OR eignaðist þegar kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy keypti hlut OR í HS Orku árið 2009. Verður tilboðið rætt í borgarráði í dag en borgin verður sem eigandi 94% hlutar í OR að samþykkja söluna. Á salan m.a. að þjóna þeim tilgangi að bæta lausafjárstöðu OR. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tók stjórn OR svonefndu kauptilboði B. Hljóðaði tilboðið upp á að hinn 30. ágúst 2013 greiddust 5.160 milljónir króna og afgangurinn hinn 14.desember 2016, eða 3.440 milljónir króna, alls 8.600 milljónir króna. Í kauptilboði A var fyrri greiðslan lægri og sú síðari hærri.

Er kveðið á um það í tilboðinu að gengi Bandaríkjadals sé ekki lægra en 120 kr., þ.e. miðgengi Seðlabankans, þegar fyrsta greiðsla kaupverðs á sér stað. Hafi t.d. dalur veikst gagnvart krónu um 10% skal heildarkaupverð lækka til jafns við það.