Hlöllabáta-samstæðan hagnaðist um 27,3 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 21,4 milljónir árið 2019. EBITDA hagnaður nam 101 milljón.

Umsvif félagsins jukust verulega á síðasta ári en ársverkum fjölgaði úr 24 í 56 á milli ára og laun og launatengd gjöld námu 359 milljónum. Tekjur hækkuðu úr 374 milljónum í 975 milljónir á milli ára en áætlanir félagsins fyrir Covid gerðu þó ráð fyrir að veltan yrði á bilinu 1,8-1,9 milljarðar króna, að því er Sigmar Vilhjálmsson, annar eigandi Hlöllabáta, sagði við Viðskiptablaðið í lok síðasta árs .

Félagið opnaði Barion veitingastað í Mosfellsbæ undir lok árs 2019 og úti á Granda í fyrra ásamt því að opna MiniGarðinn í Skútuvogi. Tekjur af minigolfi námu 85,7 milljónum.

Eignir Hlöllabáta námu 680 milljónum í lok árs, og jukust um 351 milljón á milli ára. Eigið fé nam 151 milljón í árslok 2020 og skuldir námu 529 milljónum, samanborið við 206 milljónir árið áður. Hlöllabátar eru í eigu Sigmars og Óla Vals Steindórssonar.