HS Orka hagnaðist um 865 milljónir króna í fyrra. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem var samþykktur á stjórnarfundi þess í gær, mánudaginn 14. febrúar. Hagnaðurinn er töluvert minni en á árinu 2009 þegar HS Orka hagnaðist um 6,8 milljarða króna. Sá hagnaður var þó fyrst og síðast tilkominn vegna hækkandi álafleiða og lækkun á gengistapi frá árinu 2008 þegar HS Orka tapaði 11,7 milljörðum króna, aðallega vegna falls íslensku krónunnar.

Rekstartekjur hækka á milli ára

Rekstartekjur HS Orku námu um 7 milljörðum króna í fyrra og hækkuðu úr 6,2 milljörðum króna frá árinu áður. Eigið fé félagsins er 17,3 milljarðar króna og eiginfjárshlutfallið 41,6%. Alls eru eignir HS Orku metnar á 41,5 milljarð króna. Skuldir félagsins eru 24,2 milljarðar króna.

HS Orka er að langstærstum hluta í eigu Magma Energy Sweden, sænsks skúffufyrirtækis hins kanadíska Magma Energy Corp., sem á 98,53% hlut. Mikill styr hefur staðið um eignarhaldið síðan að Magma keypti sig inn í HS Orku. Um þessar mundir standa yfir viðræður milli stjórnvalda Magma og íslenskra lífeyrissjóða um möguleg kaup á um 25% hlut í félaginu og styttingu á leigutíma jarðvarmaauðlinda sem HS Orka nýtir í 30-40 ár, en hann er í dag 65 ár.