Verðmætasta fyrirtæki heims Apple, skilaði 8,7 milljarða dollara hagnaði á örðum ársfjórðungi þessa árs. Jókst hagnaður fyrirtækisins um 12% frá sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins á tímabilinu námu 45,4 milljörðum dollara og jukust um 7% milli ára.

Sala á iPhone símum jókst um 2% milli ára og sala á iPad um 28% milli ára. Þá jókst sala á öðrum tækjum eins og Apple Watch, Apple Tv og Beats heyrnartólunum um 23% milli ára. Þá lagði Tim Cook forstjóri fyrirtækisins sérstaka áherslu á árangur þjónustuleiða Apple eins og Apple pay, App Store og Apple Music. Tekjur þessara þjónustuleiða námu 7,3 milljörðum á tímabilinu og jukust um 22% milli ára.

Tim Cook gaf lítið upp um hvenær nýr iPhone muni koma út en ef miðað er við framvirka leiðsögn fyrirtækisins fyrir yfirstandandi ársfjórðung má gera ráð fyrir að nýr sími verði kynntur fyrir lok september. Greiningaraðilar á Wall Street höfðu áður reiknað með því að uppgjörið myndi gefa til kynna að nýjum iPhone myndi seinka.

Hlutabréfaverð Apple hefur hækkað um 5,86% á eftirmarkaði eftir að fyrirtækið birti uppgjör sitt. Stendur gengi bréfanna í 158,96 dollurum á hlut og hefur hækkað um rúm 30% það sem af er ári.