Kjarasamningur flugmanna við Icelandair verður framlengdur út september á næsta ári, launahækkun næstu mánaðarmóta frestað fram í apríl, og 87 flugmönnum sagt upp, samkvæmt nýundirrituðum samningi flugfélagsins við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA). Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Samningurinn verður nú borinn undir félagsmenn FÍA, en núgildandi samningur fól sem fyrr segir í sér launahækkun nú um mánaðarmótin, og hefði runnið út um áramótin.

Vonast til að geta boðið flestum starf næsta vor
Að auki hefur ráðstöfun frá síðustu mánaðarmótum vegna kyrrsetningar Boeing 737-MAX flugvéla félagsins – sem fela átti í sér að 111 flugmenn yrðu færðir niður í hálft starf frá 1. desember til 1. apríl – verið dregin til baka. Þess í stað verður 87 flugmönnum af um 550 sagt upp störfum. Félagið segist vonast til að geta boðið flestum þeirra starf aftur næsta vor, en eins og greint var frá fyrir stuttu er talið afar ólíklegt að vélarnar verði teknar aftur í notkun á þessu ári.

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að báðir aðilar átti sig á að leita þurfi sameiginlegra lausna, og flugmenn sýni það í verki með frestun launahækkunarinnar. Hann segir uppsagnir alltaf erfiða ákvörðun, en í ljósi stöðunnar hafi orðið að grípa til aðgerðanna.

Tilkynningin í heild:

Icelandair og FÍA gera nýjan kjarasamning
Icelandair hefur undirritað framlengingu á kjarasamningi við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og gildir hann til 30. september 2020. Fyrri samningur hefði að öllu óbreyttu runnið út um næstu áramót. Samningurinn kveður á að samningsbundin launahækkun, sem taka átti gildi 1. október nk., frestast til  1. apríl 2020 og engar aðrar launahækkanir munu eiga sér stað á tímabilinu. Samhliða þessu var undirrituð viljayfirlýsing sömu aðila um að skipa starfshóp til að útfæra ýmis atriði sem snúa að starfsfyrirkomulagi flugmanna sem miða að því að styrkja samkeppnishæfni Icelandair. Samningurinn fer nú í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum FÍA.

Frekari breytingar á störfum flugmanna hjá Icelandair
Icelandair tilkynnti í lok síðasta mánaðar að gera þyrfti ráðstafanir innan félagsins til að bregðast við kyrrsetningu Boeing 737-Max flugvéla sem ekki er gert ráð fyrir að taka inn í rekstur félagsins á ný fyrr en á nýju ári. Um er að ræða fordæmalausa stöðu sem hefur neikvæð áhrif á rekstur félagsins sem og flugáætlun í vetur. Þessi staða hefur áhrif á áhafnaþörf Icelandair og eðli málsins samkvæmt þurfti að bregðast við með því að aðlaga fjölda áhafnameðlima að flugáætlun félagsins. Um síðustu mánaðamót voru því gerðar tímabundnar breytingar hjá hópi flugmanna og flugstjóra, frá 1. desember 2019 til 1. apríl 2020, þar sem m.a. 111 flugmenn voru færðir niður í 50% starf. Ákveðið hefur verið að draga þessa ráðstöfun til baka en segja þess í stað upp hluta af flugmönnum félagsins. Uppsögnin tekur gildi 1. október nk. og nær til 87 flugmanna. Icelandair vonast til þess að geta boðið flestum þeirra starf aftur næsta vor. Hjá félaginu starfa áfram um 460 flugmenn og flugstjórar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair
„Það er mikilvægt að ganga frá samningum við FÍA á þessum tímapunkti. Báðir aðilar átta sig á því að leita þarf sameiginlegra lausna sem þjóna hagsmunum Icelandair og flugmanna. Flugmenn sýna það í verki með því að fresta samningsbundnum launahækkunum. Við höfum á liðnum árum átt gott samstarf við FÍA um úrlausnir ýmissa mála er snúa að kjaramálum flugmanna og samkeppnishæfni Icelandair og aðilar eru sammála um að leggja enn meiri áherslu á þá vinnu. Það er alltaf erfið ákvörðun að segja upp starfsfólki en í ljósi þeirrar fordæmalausu stöðu sem félagið er í vegna flotamála verðum við því miður að grípa til þessara aðgerða. Við vonumst til að geta boðið þessum flugmönnum starf aftur fyrir næsta sumar.“