87 umsóknir bárust um embætti ráðuneytisstjóra nýs velferðarráðuneytis. Það verður til 1. janúar næstkomandi með sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Embættið var auglýst 28. september og rann umsóknarfrestur út 13. október.

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra, ákvað að fela þriggja manna hæfnisnefnd að fara yfir umsóknir um embættið. Í nefndinni eiga sæti dr. Ásta Bjarnadóttir, vinnu- og skipulagssálfræðingur, sem er formaður nefndarinnar, Arnar Þór Másson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og Stefán Ólafsson, prófessor.

Í erindisbréfi nefndarinnar kemur fram að hún skuli vera ráðherra til fulltingis við undirbúning skipunar í embættið. Nefndin skal skila ráðherra skriflegu mati á hæfni umsækjenda innan tveggja vikna frá því að umsóknarfresti lýkur.

Skipað verður í embættið hið fyrsta og mun nýr ráðuneytisstjóri taka þátt í vinnu verkefnisstjórnar við undirbúning að stofnun nýs velferðarráðuneytis.

Helstu verkefni nýs velferðarráðuneytis varða almannatryggingar, barnavernd, félagslega aðstoð, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum, heilsugæslu, húsnæðismál, jafnréttismál, lyfjamál, lýðheilsumál, málefni aldraðra, fatlaðra, fjölskyldna og innflytjenda, skuldamál heimilanna og vinnumarkaðsmál.

Lista yfir umsækjendur má sjá hér .