Ungir sjálfstæðismenn hafa náð eftirtektarverðum árangri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem nú stendur yfir. Á fundinum voru lagðar til hátt í 100 breytingartillögur frá ungum sjálfstæðismönnum til málefnanefnda flokksins. Hlutu 89% tillagna þeirra brautargengi í nefndum og verða því aðaltillögur nefndanna fyrir fundinum.

Meðal tillagna ungra sjálfstæðismanna voru aðskilnaður ríkis og kirkju, afnám refsistefnu í fíkniefnamálum og að litið verði á fíkn sem heilbrigðismál en ekki löggæsluvanda, lægri kosningaaldur, bætt skattaumhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki, staðgöngumæðrun, netfrelsi, að losa landbúnaðinn við fjárstuðning ríkisins og fleira.

Fjöldi annarra mála ungra sjálfstæðismanna fóru í gegn. Þá fengu ungir sjálfstæðismenn samþykkt ýmsar úrbætur í málefnum hinsegins fólks. Þar má nefna að blóðgjafar verði metnir á forsendum heilsufars óháð kynhneigð, mannréttindi trans og intersex fólks, jöfn réttindi samkynheigðra foreldra og að ekki yrði talað um konur og karla þar sem það útilokar hið þriðja kyn.