Vanskilalán fyrirtækja nam 8,9% í júlí síðastliðnum samanborið við 4,8% í júlí ári áður. Enn fremur voru 8,6% af heildarútlánum fyrirtækja í greiðsluhléi vegna farsóttarinnar um miðjan september. Því er alls 17,5% fyrirtækjalána sem ekki er verið að standa skil á greiðslum á afborgunum og vöxtum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði Seðlabanka Íslands.

Enn fremur kemur fram að viðbúið er að vanskil aukist þegar greiðsluhlé falla úr gildi á næstu mánuðum og ef efnahagsáfallið dregst á langinn. Bankalán einstaklinga í greiðsluhléi námu á sama tíma 3,4% af heildarútlánum. Vanskilalán einstaklinga námu 2,7% í lok júlí en 2,1% af heildarlánum ári áður.

Þar kemur einnig fram að vaxtalækkanir hafi glætt fasteignamarkaðinn. Hins vegar standi markaður með atvinnuhúsnæði hallari fæti. Verðvísitala atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um 21% síðustu 12 mánuði.

„Uppbygging hótela og gistiheimila hefur verið töluverð undanfarin ár og viðbúið er að offramboð hafi myndast. Mikið skrifstofuhúsnæði er í byggingu í miðborg Reykjavíkur sem gæti leitt til staðbundins offramboðs þar á næstu árum,“ segir í minnisblaðinu.

Lágt vaxtastig geti grafið undan fjármálastöðugleika

Þar kemur fram að vegna lækkandi stýrivaxta hafi þrengt að vaxtamun bankanna. Innlánsvextir óverðtryggðra óbundinna innlána sé nálægt núlli og svigrúm bankanna til að draga úr fjármagnskostnaði því takmarkaður.

Kemur fram að „arðsemi grunnrekstrar er fyrsta vörn bankanna fyrir lækkun eiginfjárhlutfalls vegna útlánataps og annarra áfalla í rekstri þeirra, lágt vaxtastig getur þannig grafið undan fjármálastöðugleika til lengri tíma litið.“

Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar er þó tekið fram að eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna þriggja sé sterk og að bankarnir hafi greiðan aðgang að lausu fé bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum. Því ættu þeir að búa yfir miklum viðnámsþrótti til að takast á við afleiðingar farsóttarinnar.