Hagnaður Wells Fargo á fyrsta ársfjórðungi dróst saman um 89% frá sama tímabili í fyrra, að því er kemur fram í frétt WSJ . Bankinn hyggst leggja milljarða dollara til hliðar til að halda sjó meðan lántakar geta ekki greitt niður lán sín hjá bankanum vegna neikvæðra áhrifa af völdum kórónuveirunnar.

Wells Fargo hagnaðist um 653 milljónir dollara á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020, en til samanburðar nam hagnaður fyrsta ársfjórðungs í fyrra 5,86 milljörðum dollara. Hagnaður á hlut var 1 sent en greinendur höfðu spáð fyrir um að hagnaður á hlut á tímabilinu yrðu 38 sent.

Tekjur bankans á fyrsta ársfjórðungi námu 17,72 milljörðum dollara og drógust saman um 18% frá sama tímabili í fyrra, er tekjurnar námu 21,61 milljarði dollara. Greinendur höfðu reiknað með að tekjur bankans myndu nema 19,4 milljörðum dollara á fyrsta ársfjórðungi.

Að ofangreindu má sjá að kórónuveiran litaði uppgjör fyrsta ársfjórðungs bankans svo sannarlega. Bandaríkjamönnum hefur verið ráðlagt að halda sér heima meðan veiran gengur yfir og hafa fjölmargir ekki getað sinnt starfi sínu sökum þessa, eða hreinlega misst það. Þá hafa fyrirtæki í landinu sem og einstaklingar óskað eftir því að fá greiðslufresti á lán sín vegna ástandsins.