Hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2010 nam 8,9 milljörðum króna eftir skatta, þar af tæpur milljarður á þriðja ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 10,4% á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi. Eiginfjárhlutfall bankans styrktist um 1,7 prósentustig á þriðja ársfjórðungi og var 18,1% þann 30. september sl.

Segir í tilkynningunni frá bankanum að neikvæðra áhrifa hafi gætt á þriðja ársfjórðungi vegna gengistaps og frekari niðurfærslu lána vegna úrvinnslumála heimila og fyrirtækja.

Helstu atriði árshlutareikningsins:

·         Hagnaður eftir skatta nam 8,9 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins 2010.

·         Rekstrartekjur námu alls 37,4 ma.kr. á tímabilinu.

·         Hreinar vaxtatekjur námu 16,4 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins.

·         Hreinar þóknanatekjur voru  4,1 ma.kr. á tímabilinu.

·         Gengistap fyrstu níu mánuði ársins nam samtals 2,2 ma.kr. en gengistap vegna gjaldeyrisójöfnuðar bankans var 1,8 ma.kr.

·         Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna og skulda var 3,0% á tímabilinu.

·         Tekjuskattur á tímabilinu nam 2,8 ma.kr.

·         Arðsemi eiginfjár var 10,4% á ársgrundvelli.

·         Kostnaðarhlutfall bankans var 57,3% á tímabilinu.

·         Útlán til viðskiptavina námu 445,4 ma.kr. þann 30. september, samanborið við 357,7 ma.kr. í árslok 2009. Aukningin er einkum tilkomin vegna nýrra útlána sem bankinn fékk í tengslum við breytt eignarhald  8. janúar síðastliðinn.

·         Innlán námu 477,8 ma.kr. samanborið við 495,5 ma.kr. í árslok 2009.

·         Í lok tímabilsins voru 1.124 stöðugildi hjá bankasamstæðunni, samanborið við 1.157 í árslok 2009.

·         Heildareignir námu 819,7 ma.kr. þann 30. september 2010 samanborið við 757,3 ma.kr. í lok árs 2009. Helstu breytingar á eignum bankans má rekja til yfirtöku Kaupskila á 87% hlut í Arion banka þann 8. janúar en þá jukust heildareignir bankans um 80,2 ma.kr. í 837,6 ma.kr.

·         Eigið fé bankans í lok september 2010 var 102,6 ma.kr. en nam 90,0 ma.kr. í árslok 2009.

Síðustu mánuðir hafa einkennst af umfangsmiklum aðgerðum til að leysa úr málum skuldsettra fyrirtækja og einstaklinga. Rétt um 4.000 einstaklingar og heimili hafa nýtt sér lausnir bankans en þar fyrir utan hafa um 10.000 viðskiptavinir bankans fært sér opinber úrræði í nyt. Með þessum aðgerðum hefur Arion banki afskrifað um 13 milljarða króna af lánum einstaklinga og heimila.

Arion banki opnaði sérhæfða ráðgjafarþjónustu í byrjun nóvember þar sem kappkostað er að koma sem best til móts við þarfir viðskiptavina í greiðsluvanda. Markmiðið er að allir viðskiptavinir bankans sem eiga í greiðsluvanda hafi innan nokkurra mánaða nýtt sér þær lausnir sem bankinn býður upp á. Starfsfólk ráðgjafarþjónustunnar leggur áherslu á að hafa samband að fyrra bragði við þá viðskiptavini bankans sem eiga í greiðsluvanda og hefur þegar verið rætt við 230 af þeim 1.200 viðskiptavinum sem ráðgjafarþjónustan ætlar að ná til. Þetta frumkvæði hefur mælst vel fyrir og hafa 80% af þeim viðskiptavinum, sem bankinn hefur haft samband við, viljað nýta sér aðstoðina.

Áherslan á fyrirtækjamarkaði hefur færst frá stærri fyrirtækjum yfir í aðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki. Nú hafa  380 fyrirtæki verið tekin inn í úrlausnarferlið og hefur niðurstaða fengist í málum 300 þeirra.

Á undanförnum mánuðum hefur bankinn sett Haga, Heklu og nokkur fasteignatengd verkefni í söluferli. Niðurstöðu vegna Haga er að vænta á fyrsta fjórðungi næsta árs og söluferli Heklu er vel á veg komið.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka: „Afkoma bankans á síðustu níu mánuðum er viðunandi í ljósi aðstæðna. Því er þó ekki að neita að ójöfnuður í gjaldeyrisstöðu bankans setur sitt mark á afkomuna. Það er aftur á móti jákvætt að sú ríka áhersla, sem við höfum undanfarna mánuði lagt á að styrkja enn frekar eiginfjárstöðu bankans, hefur skilað umtalsverðum árangri. Sterkt eiginfjárhlutfall speglar vel þann árangur en á þriðja ársfjórðungi styrktist eiginfjárhlutfall bankans um tæp 2 prósentustig, úr 16,4% í 18,1%. Þó að bankarnir hafi náð nokkrum árangri í úrlausnarmálum heimila, er ljóst að gera þarf enn betur, og æskilegt væri að þar kæmu fleiri stórir lánveitendur að með afgerandi hætti.““