Seðlabanki Íslands greip inn í gjaldeyrismarkað rétt eftir kl 15 í dag til þess að sporna gegn veikingu krónunnar sem hafði veikst um 1,92% gagnart evru það sem af var degi. Áður hafði Fréttablaðið greint frá inngripinu en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins nam inngripið 9 milljónum evra eða því sem nemur rúmlega 1,2 milljörðum króna. Er þetta sama upphæð og Seðlabankinn greip inn í með þann 11. september síðastliðinn.

Varð inngripið til þess að veiking krónunnar gekk að mestu leyti til baka. Veiking krónunnar í dag gagnvart evru nam 0,52% í stað 1,92% en kaupgengi evru er nú 135,65 kr. Kl 15 hafði gengi krónu veikst um 2,04% gagnvart dollar en veikingin eftir inngripið nam 0,41% og er kaupgengi dollar nú 118,14 kr.

Upphæð inngripsins er hins vegar einungis brot af af gjaldeyrisforða Seðlabankans en hreinn forði bankans nam 702,8 milljörðum króna í lok september mánaðar. Inngripið nam því tæplega 0,2% af gjaldeyrisforðanum.