*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 7. júní 2020 15:04

9% tekjuvöxtur og hærra EBITDA hlutfall

Framkvæmdastjóri Nox Medical segir tekjuvöxt félagsins hafa verið meiri en gert var ráð fyrir.

Sveinn Ólafur Melsted
Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical.
Gígja Einars

Tekjur Nox Medical á síðasta ári námu tæplega 17 milljónum evra, eða sem nemur um 2,6 milljörðum króna, og jukust um rúmlega 9% frá fyrra ári. Rekstrargjöld námu tæplega 8,9 milljónum evra og jukust lítillega milli ára, eða um tæp 4%. EBITDA hagnaður félagsins nam 2,8 milljónum evra, jókst um 28% frá árinu 2018.  EBITDA hlutfall var 16,4% samanborið við 14% á fyrra ári. Heildarhagnaður Nox Medical eftir skatta og fjármagnsliði á árinu 2019 nam tæplega 4,5 milljónum evra en árið áður nam hagnaðurinn 2 milljónum evra. Þar af var einskiptis söluhagnaður af hlutabréfum 1,5 milljónir evra tengdum samruna Nox Medical við FusionHealth. Eignir félagsins námu 12,5 milljónum evra í árslok 2019 og eigið fé nam 9,1 milljón evra. Eiginfjárhlutfall var því 73%.

„Rekstur Nox Medical á síðasta ári gekk vel. Tekjuvöxtur er meiri en við gerum ráð fyrir og uppbygging á beinni sölustarfsemi í Bandaríkum, gekk betur en við hefðum þorað að vona, og sú starfsemi skýtur stoðum undir frekari vöxt. Þetta var viðburðaríkt ár, þar sem samruni við Fusion Health og stofnun Nox Health bar hæst en á þeim tímapunkti bættist framtakssjóður í rekstri Alfa Framtaks í hóp hluthafa. Þrátt fyrir tímabundinn mótbyr vegna COVID-19 er félagið ákaflega sterkt, hefur sterka stöðu á markaði fyrir lausnir sínar, með sterka eiginfjárstöðu og algerlega skuldlaust við lánastofnanir og framtíðin ákaflega spennandi. Umfram allt felst styrkur félagsins í einvala sveit starfsmanna og þeim mannauði sem í þeim býr," segir Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical.

Nánar er rætt við Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér