Tekjur af fjölnotendaleiknum EVE Online gætu orðið 90% af útflutningstekjum Íslands til Kína, segir Magnús Bergsson, markaðstjóri CCP, í samtali við Viðskiptablaðið.

CCP hefur hafið samstarf við kínverska fyrirtækið Optic Communications um að selja og þjónusta tölvuleikinn EVE Online í Kína á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Opnun leiksins í Kína kemur í kjölfarið mikils vaxtar tölvuleiksins í bæði Bandaríkjunum og Evrópu.

Samstarf CCP og Optic Communications er til komið vegna þess að kínversk lög kveða á um að við útgáfu fjölnotendaleikja þar í landi verði að vera innlendur samstarfaðili með í spilunum, segir Magnús.

Hann segir að fá fyrirtæki sem framleiði fjölnotendaleiki leggi í stofnun sér félags í Kína, þar sem það sé bæði flókið og kostnaðarsamt.

Kínverski markaðurinn er mjög frábrugðin þeim er CCP þekkir best til og því mikilvægt að geta nýtt sér sérfræðiþekkingu innlendra aðila.

Leikurinn þýddur á fleiri tungumál

Magnús segir að verið sé að þýða leikinn yfir á þýsku og bendir á að því fylgi ýmsir kostir. Þá verður hægt að markaðssetja og spila leikinn á þýsku, jafnvel þó samskipti við spilara frá öðrum löndum verði á ensku, segir Magnús.

Fyrirtækið stefnir á frekari þýðingar. ?Það eru ýmis mál á heitalistanum," segir Magnús.

Má þar nefna hugmyndir um að þýða EVE Online yfir á rússnesku, portúgölsku, spænsku, frönsku og jafnvel önnur Asíutungumál, eins og til dæmis japönsku.

CCP er með 112 þúsund áskrifendur og stefnir á að velta yfir tveimur milljörðum á þessu ári. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 90.