Þótt yfir 90% fyrirtækja og stofnana hér á landi hafi ráðið fólk til starfa á síðasta ári og svo virðist sem samdráttartímabilinu sé lokið er ekki útlit fyrir vöxt í atvinnumálum á næstunni. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í frumniðurstöður rannsóknar um ákvörðunartöku í mannauðsmálum hér á landi, sem Arney Einarsdóttir og Katrín Ólafsdóttir,  lektorar við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, hafa gert.

Fram kemur í niðurstöðunum að flest fyrirtækin höfðu ráðið á bilinu einn til níu starfsmenn þótt dæmi séu um að fyrirtæki hafi ráðið allt að 50 starfsmenn. Þá telur meirihluti fyrirtækja engar eða litlar líkur á hópuppsögnum. Þrátt fyrir það virðast ekki vera stórtæk áform um ráðningar næsta hálfa árið

Niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta fyrri rannsóknir þeirra Arneyjar og Katrínar að hér á landi hafi fyrirtæki og stofnanir verið líklegri til að beita ýmsum öðrum, og jafnvel óhefðbundnari aðgerðum en hópuppsögnum í niðursveiflunni. Má þar nefna launalækkanir stjórnenda og starfsmanna og lækkað starfshlutfall. Fyrirtæki hafa almennt leitast við að aðstoða eða styðja starfsfólk í kjölfar uppsagna, t.d. með því að bjóða starfslokauppbót, aðstoð og þjálfun fyrir starfsviðtöl eða sálfræðiaðstoð. Í þeim fyrirtækjum og stofnunum þar sem laun voru lækkuð lækkuðu laun stjórnenda að meðaltali um 10% á meðan laun starfsmanna lækkuðu að jafnaði minna eða um 6,7%.

Þær Katrín og Arney kynna niðurstöður rannsóknarinnar í fyrramálið. Þar mun Chris Brewster, prófessor í mannauðsstjórnun við  Henley Business Shool við Reading háskóla í Bretlandi, Nijmegen háskólann í Hollandi og einn stofnenda CRANET samstarfsnetsins, fjalla um hlutverk mannauðsstjórnunar og styrkleika og veikleika íslenskra fyrirtækja í ljósi alþjóðlegra samanburðarrannsókna.