Talsvert var um að óskráðir einstaklingar kæmu í ljós í kjölfar nýlegs eftirlits Vinnumálastofnanir meðal verktaka, tvær starfsmannaleigur voru skráðar í kjölfar eftirlitsferða og tvö þjónustufyrirtæki komu upp á yfirborðið. Alls hafa um 90 fyrirtæki fengið áminningarbréf í tengslum við átakið vegna óskráðra erlendra starfsmanna. Í kjölfarið hafa 30 fyrirtæki fengið sent bréf þar sem þau voru beitt dagsektum og sumar þeirra þegar komnir í innheimtu.

Eftirlitið var hluti af þriggja mánaða átaki stofnunarinnar til að framfylgja ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga, laga um starfsmannaleigur og laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands. Stofnunin skilaði ráðherra greinargerð um niðurstöðu eftirlitsins í gær. Þar kemur m.a. fram að meðan á átakinu stóð heimsóttu starfsmenn Vinnumálastofnunar 124 vinnustaði, flesta á höfuðborgarsvæðinu, þar sem starfsmenn 267 fyrirtækja voru við störf.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að sú reynsla sem fengist hafi af því muni nýtast vel við næstu skref í eftirlitsstörfum stofnunarinnar með erlendu vinnuafli og skráningu þess.

„Að minnsta kosti ein starfsmannaleiga fór í „tiltekt“ sem tengist átakinu. Ýmsar aðrar vísbendingar eru um að starfs¬mannaleigur og þjónustufyrirtæki hafi vandað sig meira við skráningu vegna átaksins,” segir Gissur. Að hans sögn var starfsfólki stofnunarinnar víðast hvar vel tekið og telji Vinnumálastofnun að almennt sé ástandið gott hjá stærri byggingafyrirtækjum hvað skráningarmál varðar.

Þrátt fyrir að átaksverkefninu sé lokið segir Gissur nauðsynlegt að hafa í huga að eftirrekstur Vinnumálastofnunar um skráningar erlendra starfsmanna sé ekki verkefni sem tekur enda. Stöðugt bætast við nýir einstaklingar og sem dæmi nefnir hann fjölda umsókna um kennitölur til Þjóðskrár en í október voru þær 1.375, í nóvember 789 og í desember voru þær 516.

Veitingahús næst undir smásjá

Stofnunin hefur ráðið starfsmann til að stýra eftirlitsstörfum á hennar vegum og munu þrír starfsmenn á skrifstofu Vinnumálastofnunar starfa með honum að eftirliti, ásamt því að þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar um allt land munu sinna eftirlitsstörfum. Ákveðið hefur verið ákveðið að skoða næst, í samvinnu við lögreglu, fyrirtæki í verslun og þjónustu, einkum veitingahús, og hefst það verkefni í byrjun mars.