KPMG á Íslandi hagnaðist um 474 milljónir króna á síðasta rekstrarári, sem náði yfir tímabilið 1. október 2020 til 30. september 2021, og jókst hagnaðurinn um 90% frá fyrra rekstrarári. Rekstrartekjur námu 5,3 milljörðum króna og jukust lítillega milli rekstrarára. Rekstrargjöld námu 4,7 milljörðum og drógust saman um 247 milljónir frá fyrra rekstrarári. Rekstrarhagnaður nam 593 milljónum króna, samanborið við 304 milljónir króna á fyrra rekstrarári. Eignir námu 2,2 milljörðum króna í lok tímabilsins, skuldir námu 1,5 milljörðum og eigið fé 661 milljónum. Eiginfjárhlutfall var því 31% en árið áður var hlutfallið 23%.

Samhliða ársuppgjöri gaf félagið í fyrsta skipti út sérstaka ársskýrslu , sem jafnframt inniheldur sjálfbærniskýrslu. „Við leggjum áherslu á að rekstur og starfsemi félagsins sé gagnsæ og þessi nýjung er liður í því," segir Jón S. Helgason, framkvæmdastjóri KPMG á Íslandi. „Rekstur síðasta árs gekk mjög vel og í raun umfram væntingar. Rekstrarkostnaður lækkaði, m.a. vegna Covid-19. Nærri öll starfstengd ferðalög til útlanda féllu niður, auk þess sem verulega hefur dregið úr tíðni staðbundinna stórra funda og ráðstefna. Launakostnaður dróst einnig saman án þess að ráðist hafi verið í uppsagnir tengdar óvissunni í faraldrinum heldur fækkaði starfsfólki  vegna hefðbundinnar starfsmannaveltu. Við drógum aðeins úr ráðningum er mesta óvissan reið yfir en höfum aftur verið að bæta í þar undanfarið."

Jón kveðst hafa reiknað með að velta félagsins myndi dragast aðeins saman á síðasta rekstrarári, meðal annars í ljósi þess að umfang nokkurra stórra viðskiptavina KPMG hafi dregist nokkuð saman í faraldrinum. „Aftur á móti vó aukin eftirspurn á markaðinum eftir ráðgjöf og skattatengdri þjónustu upp á móti því, og gott betur. Það var mikil eftirspurn eftir þjónustu á borð við fjárhags- og lögfræðilegar áreiðanleikakannanir, sem meðal annars tengist samþjöppun og endurskipulagningarferli sem fer oft í gang innan fyrirtækja og markaða þegar kreppir að. Að auki hefur vinna fyrir erlenda aðila aukist nokkuð m.a. í tengslum við fjárfestingar hérlendis.

Sjálfbærni í brennidepli

Í byrjun rekstrarársins festi KPMG kaup á Circular Solutions og segir Jón félagið hafa verið kærkomna viðbót við þá sérfræðinga sem þegar störfuðu við sjálfbærniverkefni hjá félaginu. Circular Solutions hafi á aðeins nokkrum árum mótað sér sérstöðu á íslenskum markaði vegna afburða þekkingar á sjálfbærnimálum. Kaupin hafi ekki síður stutt við innleiðingu sjálfbærni inn í eigin rekstur og annað þjónustuframboð. „Sjálfbærnistefnan okkar er sett fram í skýrslunni. Við erum staðráðin í að leggja okkar af mörkum til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og leggjum áherslu á að gefa til baka og taka þátt í lykilverkefnum eins og Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, IcelandSif, Grænvangi, auk þess að fylgja Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna."

Með aukinni áherslu á sjálfbærni hafi kröfur aukist um að KPMG samþætti sjálfbærni inn í allar vörur í þjónustuframboði sínu. „Við erum að vinna mikið að stefnumótunarverkefnum með fyrirtækjum og hluti af því er að þau setji sér og skilgreini markmið í sjálfbærni. Það er yfirvofandi að stærri fyrirtækjum verði gert skylt að votta slíkar upplýsingar og við stefnum á að vera í broddi fylkingar ráðgjafa sem aðstoða við innleiðingu slíkra vottana. Smærri fyrirtæki sjá einnig sífellt meira virði fólgið í því að huga að sjálfbærni, þar sem kröfur samfélagsins til fyrirtækja um að leggja áherslu á sjálfbærni eru stöðugt að aukast" segir Jón og bætir við:

„Það hvílir skylda á fyrirtækjum af ákveðinni stærðargráðu að huga að sjálfbærni, auk þess sem mikil vitundarvakning hefur átt sér stað um mikilvægi sjálfbærni í viðskiptalífinu. Það er að myndast meiri og meiri skilningur á mikilvægi sjálfbærni og þeirra staðla sem settir hafa verið í kringum málaflokkinn. Sjálfbærni snýr ekki bara að umhverfisþættinum, heldur kemur hún einnig inn á mikilvæga þætti í stjórnun og mannauðsmálum svo sem jafnréttismálum og öðrum þáttum sem tengjast réttindum fólks."

Engin tískubóla

Jón segir KPMG jafnframt hafa unnið að ýmsum verkefnum sem tengjast grænni og blárri fjármögnun. „Sjálfbærni er engin tískubóla, heldur mikilvægur hluti af starfsemi fyrirtækja sem mun halda áfram að vaxa á ógnarhraða."

Hann segir taktinn á yfirstandandi rekstrarári hafa verið keimlíkan takti fyrra rekstrarárs. Heimsfaraldurinn og þróun hans sé sem áður viss óvissuþáttur í rekstrinum. Félagið siglir nú inn í annasamasta tímabil sérhvers árs þar sem endurskoðun og skattskil fyrirtækja og einstaklinga nær hámarki. „Það er heljarinnar vertíð framundan," segir Jón kíminn.