Samkvæmt könnun Ferðamálastofu um ferðaáform Íslendinga innanlands má búast við líflegu ferðasumri í ár.  Í könnuninni, sem framkvæmd var í apríl síðastliðnum af MMR, kemur fram að níu Íslendingar af hverjum tíu ætla að ferðast innanlands í sumar sem er nokkuð hærra hlutfall en fyrri kannanir Ferðamálastofu hafa sýnt.

Rúmlega 60% ætla eingöngu að ferðast innanlands, tæplega helmingur ætlar að eyða fleiri gistinóttum á ferðalögum innanlands í sumar en á síðasta ári og tveir þriðju ætla að fara að minnsta kosti þrjár ferðir segir í tilkynningu Ferðamálastofu.

Samkvæmt könnuninni ætlar fjórðungur landsmanna að ferðast bæði innanlands og utan og 5% eingöngu utanlands. Átta prósent ætla hins vegar ekki að ferðast. Þannig ætla 3 af hverjum 10 að ferðast utanlands sem eru vísbendingar um verulegan samdrátt miðað við fyrri kannanir.

Flest ferðalög munu eiga sér stað seinni hlutann í júlí en þá ætla þrír af hverjum fimm landsmanna að ferðast. Helmingur ætlar hins vegar að ferðast fyrri partinn í júlí eða ágúst, en fjölmargir þó á öðrum tímabilum.