Félagið ISNIC – Internet á Íslandi, sem sér um skráningu léna hér á landi, hagnaðist um 103 milljónir króna á síðasta rekstrarári og jókst hagnaðurinn um 13 milljónir frá fyrra ári.

Tekjur félagsins námu 326 milljónum króna og jukust um 28 milljónir frá árinu á undan. Rekstrargjöld námu 175 milljónum og jukust um 14 milljónir. Í lok síðasta rekstrarárs námu eignir félagsins 396 milljónir króna og eigið fé nam 198 milljónum.

Laun og launatengd gjöld námu 112 milljónum króna og stóðu nánast í stað frá fyrra ári en átta manns störfuðu hjá félaginu í fyrra, rétt eins og árið áður.

Félagið greiddi eigendum sínum 90 milljónir króna í arð vegna rekstrarársins 2018. Framkvæmdastjórinn Jens Pétur Jensson er stærsti hluthafi þess með tæplega 30% hlut í sinni eigu. Íslandspóstur er næststærsti eigandi með 19% hlut í sinni eigu. Þá á Síminn tæplega 2% hlut og Alþingi rúmlega 1% hlut.