Fiskeldi Eyjafjarðar hf. er gert upp með 90 milljóna króna tapi fyrstu sex mánuði ársins. Vergur hagnaður (EBITDA) er neikvæður um 33 milljónir króna og veltufé frá rekstri neikvætt um 38 milljónir. Til samanburðar var tap félagsins fyrir sama tímabil árið áður 32 milljónir króna, vergur hagnaður 2 milljónir og veltufé frá rekstri 4,2 milljónir. Meginskýringin á mun verri afkomu má rekja til þess að seiðasala á fyrri hluta þessa árs er mun minni en árið áður, lægra seiðaverðs og lakari afkomu hjá hlutdeildarfélagi í Kanada.

Rekstrartekjur félagsins fyrstu sex mánuði ársins námu samtals 74,8 milljónum króna en árið áður var veltan 132,9 milljónir. Vergur hagnaður var neikvæður um 32,8 milljónir króna á móti því að hafa verið jákvæður um 2 milljónir árið áður.

Afskriftir voru 17,7 milljónir króna sem er svipað og árið áður. Fjármagnsliðir eru neikvæðir um 7 milljónir á móti því að hafa verið jákvæðir um 2,9 milljónir króna fyrir sama tímabil árið áður. Áhrif hlutdeildarfélags eru neikvæð um tæpar 33 milljónir króna og hefur þá versnað um 13 milljónir frá fyrra ári.

Eins og áður sagði þá er félagið gert upp með tapi að fjárhæð 90 milljónir króna sem er 58 milljónum verri afkoma en árið áður. Þá er veltufé frá rekstri neikvætt um 38,4 milljónir króna en var jákvætt árið áður um 4,2 milljónir.

Í lok júní námu heildareignir félagsins 539 milljónum króna. Fastafjármunir voru samtals 407 milljónir og veltufjármunir 132 milljónir króna. Þá námu heildarskuldir félagsins samtals 192 milljónum króna og bókfært eigið fé 347 milljónum. Í lok tímabilsins var veltufjárhlutfallið 3,08 og eiginfjárhlutfallið 0,64.

Meginskýringin á mun verri afkomu má rekja til þriggja þátta, þ.e. minni seiðasölu, lægra seiðaverðs og lakri afkomu hlutdeildarfélags í Kanada.

FISKEY framleiðir seiði úr þremur hópum á ári. Einum seiðahópi á fyrrihluta ársins og tveimur á þeim seinni. Á síðasta ári var félagið að selja seiði úr birgðum, framleidd á árinu áður. Þær birgðir sem við áttum um síðustu áramót fóru að stærstum hluta í eigið eldi í Þorlákshöfn. Seiðaverðið hefur lækkað um 20% að jafnaði frá fyrra ári, sem má rekja til færri kaupenda á seiðum en áður.

Afkoma hlutdeildafélagsins í Kanada versnaði frá fyrra ári vegna þess annars vegar að seiðaframleiðsla var minni en á sama tíma árið áður og hins vegar vegna þess að erfiðlega hefur gengið að fá kaupendur að seiðum til áframeldis í Kanada. Ástæðan fyrir lítilli seiðasölu er sú sama og hjá FISKEY, þ.e. að slæmt gengi í laxeldi hefur dregið úr möguleikum á fjármögnun á öðru fiskeldi.

Rekstraráætlun félagsins gerir ráð fyrir að afkoma þess verði mun betri á seinni hluta ársins en hún var á þeim fyrri. Kemur þar til að 2/3 hlutar seiðaframleiðslunnar eru á seinni hlutanum og þess að við gerum ráð fyrir að selja nær öll þau seiði sem framleidd verða á tímabilinu. Stærsti hlutinn fer til samstarfsaðila okkar til margra ára í Noregi, en einnig fara seiði til Hjaltlandseyja, í Silfurstjörnuna í Öxarfirði og til Kína. Gert er ráð fyrir að framleiðsla þessa árs verði 500-550 þúsund seiði, en árið áður var framleiðslan 750 þúsundum seiði.

FISKEY hefur nú þegar sent tvær sendingar að seiðum til Kína með góðum árangri og áætlað er að þriðja sendingin fari í nóvember nk. Gert er ráð fyrir að alin lúða fari fyrst á markað í Kína um mitt næsta ár og viðtökur neytenda munu ráða því hversu stór lúðuseiðamarkaðurinn getur orðið þar í landi á næstu árum.

?Okkur var ljóst í byrjun árs að árið yrði okkur erfitt. Margt bendir til þess að afkoman á síðari hluta ársins verði mun betri en engu að síður er ljóst að afkoma ársins verður óviðunandi," segir Jón Hallur Pétursson, stjórnarformaður félagsins í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Hann segir að almennt megi segja að skilyrði í fiskeldi í Evrópu séu að batna. ?Ennfremur teljum við að Asía gæti orðið mjög spennandi markaður fyrir lúðuseiði á næstu árum," segir Jón Hallur Pétursson.