Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, og Tryggvi Finnsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hf. undirrituðu í gær á Húsavík svokallaðan vaxtarsamning til þriggja ára. Þetta er sjötti vaxtarsamningurinn sem undirritaður er af hálfu iðnaðarráðuneytisins, en í honum felst þó sú nýbreytni að hann er gerður við einn aðila og sér stjórn Atvinnuþróunarfélagsins og heimamenn alfarið um framkvæmd hans.

Framlag ríkisins samkvæmt samningnum er 90 milljónir króna, og kemur af þeim fjármunum sem  ríkisstjórnin samþykkti að ráðstafa til mótvægisaðgerða vegna aflabrests í þorski, samtals um 90 milljónir króna.

Starfssvæði Atvinnuþróunarfélagsins og vaxtarsamningsins nær frá Vaðlaheiði að Bakkafirði en þó það sé víðfemt búa þar aðeins um 5000 manns. Meðal þeirra verkefna sem unnið er að á svæðinu má nefna Þingeyska matarbúrið, Ferðamálaáætlun Norðausturlands, GEBRIS (nýsköpun austan Jökulsár á Fjöllum), vetrarferðamennsku kringum Snjótöfra í Mývatnssveit og rannsókn á margföldunaráhrifum sem hugsanlega verða við uppbyggingu stóriðju á Bakka við Húsavík.

Ríkisstjórnin skipaði nýlega nefnd til gera tillögu um leiðir til að styrkja atvinnulíf í fámennum byggðarlögum á Norðurlandi eystra sem eiga undir högg að sækja í atvinnumálum. Nefndinni er ætlað að koma með tillögur um mögulega styrkingu menntunar og rannsókna, uppbyggingu iðnaðar og þjónustu og flutning starfa frá höfuðborginni. Hún að skila tillögum eigi síðar en 1. maí næstkomandi.