Fyrsti þáttur í sjöundu þáttaröð Game of Thrones sem sýndur var á síðastliðinn sunnudag hefur slegið í gegn. Samkvæmt bandarísku sjónvarpsstöðinni HBO hafa yfir 16 milljónir horft á þáttinn sem er um helmingi fleiri en horfðu á fyrsta þátt sjöttu þáttaraðar.

Þessar tölur blikna þó í samanburði við þann fjölda sem hefur horft ólöglega á þáttinn. Samkvæmt greiningarfyrirtækinu MUSO sem sérhæfir sig í greiningum á ólöglegu efni, hafa um 90 milljón manns um allan heim horft ólöglega á þáttinn samkvæmt frétt Business Insider .

Tæplega 78 milljónir streymdu þættinum ólöglega, 8,3 milljónir hlóðu honum niður í gegn um torrent vefþjóna og 4,9 milljónir hlóðu honum niður á annan hátt. Rúmlega 15 milljónir horfðu ólöglega á þáttinn í Bandaríkjunum, 6,2 milljónir í Bretlandi og 4,9 milljónir í Þýskalandi.

Í yfirlýsingu frá stofnanda MUSO, Andy Chatterley, segir að ekki sé hægt að neita því að þetta séu háar tölur sem kunni að koma einhverjum á óvart. Samt sem áður komi þetta fyrirtækinu ekki mikið á óvart þar sem svipaðar tölur hafi áður sést, þar sem miklu fleiri horfi ólöglega á þætti frekar en með löglegum leiðum.

Segir Chatterley að þessar tölur sýni ekki bara hversu vinsæll þátturinn er, heldur sýni þær einnig gífurlegt tækifæri fyrir framleiðendur á sjónvarpsefni til að fá fólk til að nota löglegar leiðir við að horfa á efni.