*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 19. janúar 2020 09:06

90 prósent lögðu áherslu á nýsköpun

Svigrúm síðustu mánaða hefur verið nýtt til nýsköpunar í ferðaþjónustu segja langflest fyrirtækin í nýrri viðhorfskönnun.

Ritstjórn
Ferðamenn sækja í að skoða íslenska náttúru.
Haraldur Guðjónsson

Í nýrri viðhorfskönnun KPMG í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og Íslenska ferðaklasann má merkja hóflega bjartsýni fyrir árið framundan og segir Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF að hann búist við svipað mörgum ferðamönnum til landsins í ár og á síðasta ári, en þó gæti það breyst á seinni hluta ársins með auknu framboði sæta.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gátu ferðaþjónustufyrirtækin raðað helstu þáttum sem þau skiptu máli í mikilvægisröð og þar skoruðu gengismál, framboð flugs til og frá landinu, kjaramál og hagræðing í rekstri hæst, en einnig sést að atriði eins og nýsköpun og vöruþróun og Erlend samkeppni hækka á listanum frá fyrra ári. Einnig var spurt út í áherslumál fyrirtkjanna síðustu mánuði og þar skoraði nýsköpun og vöruþróun hæst.

Það að 90% fyrirtækjanna í könnuninni svara því játandi að hafa lagt áherslu á nýsköpun og vöruþróun síðustu 12 mánuði sýnir að mati Jóhannesar Þórs að fyrirtækin hafi nýtt svigrúmið á markaðnum síðustu mánuði vel. Það eigi einnig við um ýmiss konar gæðamál, eins og hæfni og menntun sem 77% fyrirtækjanna segjast hafa fjárfest í, og aftur aðgerðum tengdum sjálfbærni sem 60% fyrirtækjanna segjast hafa farið út í eða sett sér sérstök markmið í á síðustu mánuðum.

„Hluti ferðamanna sem koma horfir á loftslagsmálin og að geta ferðast á sem grænastan máta ásamt því að koma hingað til að upplifa hreina og óspillta náttúru og þeim hópi fer fjölgandi. Það hefur líka sýnt sig að ábyrgari hegðun hjá fyrirtækjunum, bæði í samfélagsábyrgð og sjálfbærni gagnvart umhverfinu hefur einfaldlega góð áhrif á reksturinn. Sama má segja um áherslu á menntun og hæfni starfsfólks sem gefur betri gæði, og betri upplifun gesta, og þar með betri einkunn fyrir fyrirtækin og þá meiri líkur á aukinni eftirspurn á áfangastaðnum og að fólk komi aftur. Svo að sjálfbærnimálin eru að koma til framtíðar inn í greinina," segir Jóhannes Þór sem er ánægður með aukna nýsköpun hjá fyrirtækjum í geiranum.

„Nýsköpun og vöruþróun verður oft til hjá stærri fyrirtækjum og nýjar hugmyndir spretta upp í kringum rótgróin fyrirtæki, þótt það gerist líka hjá litlum aðilum en þá oft á annan máta. Við getum tekið sem dæmi lítil hótel kannski úti á landi sem hafa farið í vöruþróun þar sem ekki er einungis verið að bjóða gistingu heldur farið að kortleggja gönguleiðir í umhverfi sínu, bjóða gestum leiðsögn á einhverja náttúrustaði og fleira slíkt. Það eru heilmikil tækifæri í þessu og mörg lítil fyrirtæki úti á landi hafa ekki orðið jafn mikið vör við niðursveifluna yfir sumartímann eins og fyrirtækin hérna á suðvesturhorninu. Áframhaldandi stuðningur við uppbyggingu, nýsköpun og vöruþróun er eitt mikilvægasta viðfangsefni greinarinnar inn í næsta áratug."

Á myndinni að ofan má sjá meðalveltu þáttökufyrirtkækjanna annars vegar í ár, dökkgræna súlan og hins vegar í fyrra, ljósbláa súlan.

Auknar áhyggjur af erlendum aðilum

Áhyggjur ferðaþjónustuaðila af erlendri samkeppni rjúka úr neðsta sæti upp í það níunda í viðhorfskönnuninni. „Því miður finna fyrirtækin mjög fyrir samkeppni frá erlendum aðilum sem bjóða mjög lág verð hingað inn á íslenska markaðinn, oft í krafti félagslegra undirboða. Við sjáum þetta til dæmis í rútubransanum, þar sem aðbúnaður bílanna er ekki í lagi og bílstjórarnir fá augljóslega ekki greitt samkvæmt íslenskum samningum,," segir Jóhannes Þór.

 „Því miður hefur íslenska eftirlitskerfinu ekki tekist að sporna við þessu, við getum nefnt dæmi um ferðaskrifstofur frá Asíulöndum sem brjóta allt sem brotið verður í reglum. Þegar fyrirtækin bjóða allt að 40% lægra verð en íslensku fyrirtækin geta boðið sjáum við að það er misbrestur á að reglunum sé fylgt og lítið gerst síðan við gerðum skýrslu um málið í vor."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.