*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 7. október 2020 16:35

90% seldra bíla verði rafbílar

Um 90% af seldum Volkswagen bílum í Noregi á næsta ári munu verða rafknúnir að sögn umboðsaðila þar í landi.

Ritstjórn
Nýi rafknúni sportjeppinn Volkswagen ID.4 mun eflaust seljast ágætlega í Noregi á næsta ári ef spá umboðsaðilans verður að veruleika.
Aðsend mynd

Um 90% af seldum Volkswagen bílum í Noregi á næsta ári munu verða rafknúnir og árið 2023 gæti hver einasti seldi bíll frá þýska bílaframeliðandanum verið rafknúinn, að sögn umboðsaðila Volkswagen í Noregi. Reuters greinir frá þessu.

Frændur okkar í Noregi hafa sett sér markmið um að árið 2025 verði rafbílar alfarið búnir að taka yfir markaðinn á kostnað bensín og díselbíla. Hefur m.a. verið komið á skattalegum hvötum til að stuðla að þessari þróun, en sérstakur skattur er ekki lagður á rafbíla líkt og gert er í tilfelli bensín- og díselbíla.

Í síðasta mánuði voru 61,5% seldra bíla í Noregi rafbílar sem er það mesta sem sést hefur á einum mánuði þar í landi. Á síðasta ári voru 42,4% seldra bíla í landinu rafknúnir og því er óhætt að segja að Norðmenn séu á góðri leið með að ná ofangreindum markmiðum sínum.

Stikkorð: Noregur Volkswagen rafbílar