Þórður Víkingur Friðgeirsson er lektor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Hann hefur rannsakað stjórnsýslu og ákvarðanatöku í tengslum við opinber verkefni á Íslandi. Rannsóknir Þórðar benda til þess að næstum því 90% líkur séu á því að stór opinber verkefni hér á landi fari fram úr kostnaðaráætlun. Meðalframúrkeyrslan í þeim verkefnum sem Þórður hefur rannsakað er um 60 prósent.

Í grein sem birtist í tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu í fyrra rakti Þórður kostnaðarframúrkeyrslu hinna ýmsu opinberu verkefna. Sem dæmi má nefna að hús Orkuveitu Reykjavíkur fór 165% fram úr áætlun, Kárahnjúkavirkjun 60 prósent og Ráðhús Reykjavíkur 47% fram úr áætlun að mati Þórðar.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Þórður að það sé vandasamt að fela stjórnmála- og embættismönnum að ráðstafa fé frá almenningi. Hætta sé á að ábyrgð rofni. Þórður segir að í nágrannalöndum okkar sé iðulega brugðist við þessu vandamáli með því að skilgreina snertilínur milli markaðarins og opinberrar stjórnsýslu mjög vandlega.

„Þessi skilflötur eða snertilínur um það hvernig við tökum ákvarðanir, hvernig við gerum hagkvæmniathuganir, hvernig við reiknum kostnað og þjóðhagslegan ábata, hvernig við höfum ráðgjöf og úttektir þriðja aðila, og hvernig við metum áhættu – svona gæti ég áfram talið – þetta er ekki til staðar á Íslandi,“ segir Þórður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .