Bank of America, næst stærsti banki Bandaríkjanna, hagnaðist um 7 milljarða dali eða um 900 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2021. Það er 28% hagnaðaraukning frá sama ársfjórðungi 2020 þegar hagnaður nam 5,5 milljörðum dala.

Aukinn hagnaður bankans stafar fyrst og fremst af hærri vaxtatekjum og verulegri tekjuaukningu á fjárfestingarbankasviði, að því er kemur fram í grein hjá Wall Street Journal . Útlánavöxtur nam 6% á fjórða ársfjórðungi bæði samanborið við sama ársfjórðung 2020 og þriðja ársfjórðung 2021.

Tekjur bankans námu 22 milljörðum dala á ársfjórðungnum, sem er 10% aukning frá sama ársfjórðungi 2020. Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum jukust einnig um 11% og námu 11,4 milljörðum dala.

Gengi bréfa bankans hefur hækkað um 4,4% frá byrjun árs.