Samtals hafa íslensku álfyrirtækin greitt því sem nemur rúmum 900 milljónum króna á síðustu fjórum árum fyrir losunarheimildir á gróðurhúsaloftegundum. Þetta kemur fram í samantekt Bryndísar Skúladóttur, sviðstjóra framleiðslusviðs Samtaka iðnaðarins sem heldur erindi um málið á ársfundi Samáls, samtaka álfyrirtækja, á fimmtudag, að því er Morgunblaðið greinir frá.

Álfyrirtækin fá árlega úthlutað mengunarkvóta í samræmi við evrópskt viðskiptakerfi um slík viðskipti sem innleitt var árið 2013, en það gerir ráð fyrir því að losun gróðurhúsalofttegunda minnki um 42% frá árinu 2005 til 2030.

Heimilt magn minkar með ári hverju

Með hverju ári fá álfyrirtæki, orkufyrirtæki og flugfélög á EES svæðinu minna magn en árið áður, svo fyrirtækin verða því að kaupa viðbótarheimildir til losunar til að uppfylla þörf hvers árs.

Þannig myndist hagrænn hvati að sögn Bryndísar til að finna lausnir til að draga úr útblæstrinum, og er þar meðal annars horft til niðurdælingar efnanna líkt og OR hefur verið að gera tilraunir með við Hellisheiðarvirkjun.

Íslensk álver drógu úr útblæstri á undan öðrum

Segir hún að íslensk álfyrirtæki hafi verið í fararbroddi á heimsvísu strax frá árinu 1990 í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, eins og PFC efnum.

„Þetta snýst um ferlastýringu innan álveranna. Eftir mikinn árangur á fyrstu árunum eftir 1990 hafa fyrirtækin verið að bæta sig áfram um 1-2% á ári sem er gríðarlega mikið þar sem þessar verksmiðjur losa svo mikið af þessum lofttegundum,“ segir Bryndís, en hún segir að það sem greitt sé fyrir losunarkvóta renni að lokum til íslenska ríkisins.

„Það er heimild í þessum lögum fyrir svokallaðan loftslagssjóð sem nú er tómur, en í hann munu þessir fjármunir renna, og vonir standa til að féð verði síðan notað til að styrkja nýsköpun á þessu sviði.“