Kröfuhafar þrotabús Motormax fengu rétt rúmlega 14% greitt upp í kröfur sínar. Lýstar kröfur námu 907,8 milljónum króna og voru 129,3 milljónir veðkrafna greiddar. Ekkert fékkst hins vegar upp í 778,5 milljóna króna almennar kröfur, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu.

Motormax var eitt af félögum í eigu útgerðarmannsins Magnúsar Kristinssonar í Vestmannaeyjum. Það var úrskurðað gjaldþrota um miðjan maí árið 2009 og lauk skiptum á búinu 20. desember síðastliðinn.

Motormax hafði tekið erlent lán hjá Landsbankanum. Skiptastjóri þrotabúsins hélt því hins vegar fram að lánið væri ekki í erlendri mynt heldur í íslenskum krónum með gengistryggingu við erlenda mynt. Landsbankinn var á öðru máli. Dómur féll í Hæstarétti í málinu í júní árið 2011 og var þar tekið undir kröfu þrotabúsins. Dómurinn hafði mikið fordæmisgildi í gengislánamálum.