Good good, íslenskt nýsköpunar- og matvælafyrirtæki, tapaði rúmlega 2,6 milljónum dala á síðasta ári, eða sem nemur 360 milljónum króna samkvæmt gengi dagsins í dag. Tap félagsins jókst um 2 milljónir dala á milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir síðasta rekstrarár.

Velta félagsins jókst hins vegar um 40% á milli ára og nam rúmum 6,5 milljónum dala, um 900 milljónum króna. Veltan hefur aukist hratt frá árinu 2019 þegar hún nam 1,9 milljónum dala.

Eignir félagsins námu 4,5 milljónum dala, eða sem nemur 611 milljónum króna. Jukust eignirnar þannig um 140 milljónir á milli ára.

Eigið fé var 2,4 milljónir dala, um 330 milljónir og eiginfjárhlutfall um 54%. Hlutfallið var mun hærra árið áður, eða um 76%., en skuldir félagsins meira en tvöfölduðust á milli ára.

Sjá einnig: Good Good sækir 2,6 milljarða

Good Good lauk 20 milljón dala hlutafjáraukningu, að jafnvirði 2,6 milljarða króna, fyrr á árinu. Hlutafjáraukningin var leidd af framtakssjóðnum SÍA IV, en aðrir innlendir fjárfestar og núverandi hluthafar fyrirtækisins tóku einnig þátt.

Með aðkomu SÍA IV, varð sjóðurinn að næst stærsta hluthafa Good Good með 24,4% hlut. Stærsti hluthafi Good Good er Eignarhaldsfélagið Lyng, móðurfélag Ósa, sem á meðal annars Icepharma og Parlogis, með 34,7% hlut.

Framkvæmdastjóri Good Good er Garðar Stefánsson, en auk Garðars eru stofnendur félagsins þeir Agnar Tryggvi Lemack og Jóhann Ingi Kristjánsson. Þeir stofnuðu Good Good árið 2015 á grunni stevíudropaframleiðslu í Hafnarfirði. Fyrirtækið byrjaði á því að framleiða sykurlaust sætuefni og fljótlega bættust lágkolvetnasultur við. Í dag býður vörumerkið upp á fjölbreytta línu af áleggi, ketó-stöngum, sírópum, sultum og náttúrulegum sætuefnum.