"Miklir hagsmunir eru fólgnir í því að ríkið þyrfti ekki að endurfjármagna Byr, en þetta er fjórða stærsta eignasafnið í bankakerfinu," segir Steingrímur J. Sigfússon í viðtali við Fréttablaðið í morgun er hann var spurður út í kaup Íslandsbanka á Byr. Þá segir hann að frá byrjun hafi verið reynt að að leggja málin þannig upp að aðrir en ríkið tækju starfsemi Byrs yfir og fjármögnuðu hana. Segir hann ríkið ekki hafa reitt neitt fé þar fram nema stofnféð, tannféð, sem er lágmarksfjárhæð til að fjármagna nýjar stofnanir að fjárhæð 900 milljónir króna þegar bankinn var stofnaður. Steingrímur segir að ríkið muni að uppistöðu til fá það fé til baka.

"Byr var settur í opið söluferli og öllum sem áhuga höfðu gafst kostur á að fá aðgang að upplýsingum. Þeir sem sýndu áfram áhuga fengu síðan frekari upplýsingar. Síðan komu tilboð og það var gengið til viðræðna við þann sem bauð best, en menn voru sammála um hvaða aðili það væri," segir Steingrímur í viðtali við Fréttablaðið.

Kaupverð Byr verður upplýst þegar söluferli er að fullu lokið af því er fram kemur í fréttatilkynningu Íslandsbanka. Endanlegu söluferli lýkur ekki fyrr en að fengnu samþykki Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlitsins. Íslandsbanki hyggst upplýsa kaupverðið þegar kaupin eru gengin um garð og öll skilyrði uppfyllt. Þar til þá eru samningsaðilar bundnir trúnaði.