Hlutafé lykileiganda Latabæjar, Turnar Broadcasting System Iceland, hefur verið aukið um 912 milljónir króna og á að nýta fjármunina til framleiðslu nýrra Latabæjar-þátta.

Í Morgunblaðinu í dag segir frá því að tökur séu þegar hafnar og stefnt að því að ljúka þeim eftir hálfan mánuði. Að tökum loknum tekur eftirvinnsla við.

Bandaríska fjölmiðlasamsteypan Turner Broadcasting, sem á sjónvarpsstöðvar á borð við CNN og Cartoon Network, keypti Latabæ í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins fyrir ári siðan.

Viðskiptablaðið greindi ffrá því fyrir ári að Turner Broadcasting hafi keypt Latabæ fyrir 2,5 milljarða króna og að Íþróttaálfurinn Magnús Scheving héldi forstjórastólnum. Þá var á sama tíma greint frá því að fyrirtækið ætli að hefja strax framleiðslu á nýjum sjónvarpsþáttum. Hann leikstýrir þáttunum, skrifar handrit og leikur sjálfan álfinn áfram.

Latibær hefur verið sýndur í 170 löndum og nær til barna á 500 milljón heimilum. Fyrirtækið er með um 300 virka samninga á hverjum tíma, bæði við sjónvarpsstöðvar og margs konar framleiðendur sem hafa gert samning um að nýta vörumerkið, að því er fram kom í Morgunblaðinu í maí.