Þrátt fyrir lítið atvinnuleysi sóttu 900 manns um nokkur störf sem 66°Norður auglýsti í byrjun mánaðar. Elín Tinna Logadóttir, starfsmannastjóri 66°Norður, segir viðbrögðin við atvinnuauglýsingunni hafa komið skemmtilega á óvart.

Mun fleiri umsóknir hafi borist en hún hafi búist við. Ein atvinnuumsóknin vakti alveg sérstaka athygli en það var umsókn Ásdísar Karlsdóttur, sem er 81 árs og búsett á Akureyri. Á Facebook síðu 66°Norður spurði Ásdís hvort fyrirtækið vantaði ekki fyrirsætu og birti af því tilefni myndir sem þóttu sýna meðfædda módelhæfileika.

Uppátækið vakti mikil og góð viðbrögð og innan við viku eftir að hún hafði varpað fram fyrirspurninni hafði hún setið fyrir í auglýsingu hjá fyrirtækinu.